Gjaldkeri

Samstarfsnefnd AA-deilda á Stór-Reykjavíkursvæðinu kýs sér gjaldkera úr kjörnum SAAS-fulltrúum, sem starfar í ár í senn. Gjaldkeri er kosinn á aðalfundi SAAS sem haldin er í mars ár hvert.

Gjaldkeri SAAS er að jafnaði valinn úr hópi þeirra SAAS-fulltrúa, sem starfað hafa í tvö ár.

Gjaldkeri skal kynna sér starfsvenjur og markmið SAAS. Einkum er fjallað um starf gjaldkera í 9. 10. og 11. starfsvenju SAAS.

Gjaldkeri skal mæta á fundi SAAS, sem haldnir eru kl. 18.30 fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði (8. starfsvenja) og gefa þar skýrslu um fjárhag SAAS, stöðu reiknings, tekjur og gjöld frá mánuði til mánaðar. Hann afhendir ritara uppgjörið til birtingar á heimasíðu SAAS.

Gjaldkeri hefur prókúru, ásamt oddamanni, fyrir reikning SAAS þann tíma sem hann starfar og greiðir í heimabanka viðskiptabanka SAAS þá reikninga sem SAAS berast og ber að greiða. Hann skal gæta þess að greiða reikninga á gjalddaga og er ábyrgur gagnvart SAAS fyrir því að dráttarvextir og annar óþarfa kostnaður falli ekki á SAAS. Gjaldkeri skal varðveita þá reikninga sem berast SAAS og geyma þá í gjaldkeramöppu.

Gjaldkeri skal gæta þess að jafnan sé til innistæða á reikningi SAAS sem nemur kostnaði við rekstur SAAS í sex mánuði (11. starfsvenja). Helstu reikningar sem tengjast rekstri SAAS eru vegna húsaleigu SAAS, SOS og upplýsinganefndar, símreikningur vegna neyðarsímans, póstburðargjöld, skrifstofuvörur, s.s. umslög, merkimiðar og möppur, gjöld vegna lénsins http://www.saas.is/. Einnig annar kostnaður sem samþykkt hefur verið að stofna til á reglulegum fundi SAAS.

Reikningsár SAAS er almanaksárið (10. starfsvenja). Í lok hvers reikningsárs og í síðasta lagi fyrir aðalfund SAAS skal gjaldkeri leggja inn á reikning Landsþjónustunefndar (11. starfsvenja) þá fjármuni SAAS sem eru umfram fyrirsjáanlegan rekstrarkostnað næstu sex mánaða.

Á síðasta reglulega fundi SAAS fyrir aðalfund skal gjaldkeri leggja fram reikninga SAAS fyrir síðasta reikningsár, áritaða af endurskoðanda SAAS.

Á aðalfundi SAAS leggur gjaldkeri fram reikninga SAAS til samþykktar, skýrir þá og svarar spurningum fundarmanna. (2. gr. dagskrá aðalfundar SAAS.)

Gjaldkeri telst hafa lokið störfum þegar hann, eftir aðalfund SAAS, hefur framselt eftirmanni sínum prókúru að reikningi SAAS og afhent honum aðgangsorð að heimabanka og fylgiskjöl til varðveislu.